Íslandsþari starfar samkvæmt rannsókna- og vinnsluleyfi sem gefið var út af Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu 23. september 2021 og gildir til 31. desember 2027. Leyfið er veitt skv. lögum nr. 79/1997 og að fenginni umsögn Hafrannsóknarstofnunar. Leyfið nær til svæðisins fyrir Norðurlandi frá Vatnsnesi í Húnaflóa til Þistilfjarðar.
Fiskistofa hefur eftirlit með rannsókninni og er heimilt að hafa eftirlitsmann um borð í skipum sem rannsaka og uppskera á kostnað Íslandsþara. Við rannsóknir og uppskeru á þara samkvæmt leyfinu skal gæta að mikilvægum fiskimiðum, s.s. hrygningarsvæðum hrognkelsa og skal Íslandsþari hafa samráð við Hafrannsóknarstofnun hvað þetta varðar.
Rannsóknaráætlunin er unnin í ríku samráði við Hafrannsóknarstofnun, sem skal fá nákvæmar upplýsingar um niðurstöður. Niðurstöður skal einnig birta opinberlega. Samkvæmt leyfinu skal Íslandsþari greiða Hafrannsóknarstofnun þóknun vegna þessa samstarfs í tengslum við rannsóknaráætlunina.