Saga Íslandsþara

 

Stórþari (Laminaria hyperborea) hefur verið nýttur víðsvegar um heiminn í langan tíma. Í Evrópu hefur hann m.a. verið nýttur í Noregi og við Frakkland í marga áratugi. Í Noregi hefur iðnaður sem byggir á þaratekju fest sig í sessi og skapað störf og útflutningsverðmæti síðan á seinni hluta 20. Aldar. Iðnaðurinn stendur fyrir mikilli vöruþróun, leiðir af sér nýsköpun og stuðlar að verðmætaskapandi rannsóknum.

Á frumstigi verkefnisins voru framkvæmdar frumathuganir á útbreiðslu Stórþara við Íslandsstrendur. Athuganirnar fóru fram á árunum 2019 og 2020 og í ljós kom að magn Stórþara væri nægjanlegt til að réttlætanlegt væri að leggjast í frekari rannsóknir á útbreiðslunni.

Íslensk Verðbréf hf. komu að verkefninu snemma árs 2021. Félagið hefur mikla reynslu af sjávarútvegstengdum verkefnum og býr að öflugum bakhjörlum til kjölfestu slíkra verkefna. Hófust þá frekari og víðtækari rannsóknir á stærra hafsvæði í góðu samstarfi við og undir handleiðslu Hafrannsóknarstofnunar. Þær rannsóknir leiddu í ljós að nægilegt magn Stórþara sé til staðar fyrir utan Norðurland til að réttlæta varfærnar heimildir til rannsókna og nýtingar. Íslandsþari fékk úthlutað slíku leyfi í lok árs 2021. Þar með var kominn viðskiptalegur grundvöllur fyrir þaratekju og fullvinnslu íslensks Stórþara sem sóttur væri fyrir utan Norðurland.

Íslandsþari ehf. hóf eiginlega starfsemi á öðrum ársfjórðungi 2022 eftir að hafa aflað nægs hlutafjár til að kanna fýsileika og grundvöll framtíðaráforma um Stórþaratekju við strendur Íslands og fullvinnslu afurða á Íslandi.

Leiðarljós í starfsemi Íslandsþara er að nálgast þá náttúruafurð sem Stórþari er af virðingu. Verður það best gert með skynsamlegri og sjálfbærri þaratekju í sem bestri sátt við náttúru og samfélag. Félagið horfir til mjög langs tíma og ætlar sér að skila verðmætum og þekkingu til samfélagsins. Öll starfsemi Íslandsþara byggir á rannsóknum sem unnar eru undir handleiðslu Hafrannsóknarstofnunar. Rannsóknunum er ætlað að fylgjast með áhrifum þaratöku til lengri tíma og leggja grunn að skynsamlegri nýtingu. Skynsamleg nýting markar stefnu og vegferð félagsins.