Íslandsþari hlýtur styrk úr Tækniþróunarsjóði til þróunar vinnslu lífvirkra efna úr stórþara

Íslandsþari hefur hlotið styrk úr Tækniþróunarsjóði Rannís í flokknum Sproti fyrir þróunarverkefnið „Vinnsla lífvirkra efna úr stórþara“. Verkefnið er meðal 69 verkefna sem hlutu styrk í vorúthlutun sjóðsins af 480 umsóknum sem bárust.

Markmið verkefnisins er að þróa nýja aðferð til að vinna lífvirk efni úr stórþara sem nýtast í heilsutengdar vörur og aðrar verðmætar afurðir. Verkefnið byggir á þeirri framtíðarsýn fyrirtækisins að skapa verðmæti úr íslenskum sjávargróðri með sjálfbærum hætti.

„Þessi styrkur er mikilvæg viðurkenning á þeirri vinnu sem við höfum lagt í rannsóknir og þróun á síðustu árum. Hann gerir okkur kleift að stíga næstu skref í því að þróa verðmætar og náttúrulegar vörur úr íslenskum þara. Efnagreining á þaranum hefur sýnt að hann inniheldur mikilvæg efni sem bjóða upp á tækifæri til að auka verðmætasköpun og stuðla að fullnýtingu þarnas,“ segir Sigþóra Brynja Kristjánsdóttir, rannsóknar- og þróunarstjóri hjá Íslandsþara.

Styrkurinn markar mikilvægan áfanga í áframhaldandi uppbyggingu fyrirtækisins og styrkir stöðu þess sem frumkvöðull á sínu sviði. Með stuðningi Tækniþróunarsjóðs skapast tækifæri til að efla samkeppnishæfni og leggja grunn að sjálfbærri verðmætasköpun.